Skilmálar vegna endurgreiðslu afsláttar

1. Aðild
Skilmálar þessir gilda um endurgreiðslu til notenda vegna afsláttar samkvæmt tilboðum sem notendum standa til boða. Meniga Iceland ehf., kt. 621014-0130 (hér eftir „Meniga Iceland“), sem er í 100% eigu Meniga ehf., sér um að afla tilboða og kynna fyrir notendum í kerfi Meniga og eiga skilmálar þessir við um réttarsamband notenda Meniga og Meniga Iceland. Með því að staðfesta skilmála þessa staðfesta notendur bæði að þeir skilji og samþykki þessa skilmála og réttarsamband sitt við Meniga Iceland. Jafnframt veitir notandi Meniga Iceland fulla heimild til að fá þær upplýsingar og gögn sem þörf er á úr kerfi Meniga ehf. til þess að unnt sé að ljúka vinnslu við tilboðin, þó ávallt innan þeirra marka sem almennar skilmálar og öryggis- og persónuverndarstefna Meniga hverju sinni setja.

2. Endurgreiðslur vegna afsláttar
Meniga Iceland mun af og til bjóða notendum upp á tilboð þar sem tiltekin fyrirtæki og söluaðilar bjóða notendum afslátt ef verslað er á tilteknu tímabili, að því gefnu að notandi greiði með greiðslukorti sem tengt er við kerfi Meniga. Tilboðin og þar með afslátturinn virkjast ekki ef notandi greiðir með öðrum hætti, t.d. reiðufé. Tilboðin munu birtast í kerfi Meniga.

3. Staðfesting á þátttöku
Notendur skulu almennt staðfesta þátttöku í tilboðum inn á vef Meniga, en í ákveðnum tilfellum er staðfestingar ekki krafist og þátttaka getur verið sjálfvirk. Í þeim tilfellum þar sem krafist er staðfestingar og slík staðfesting liggur ekki fyrir verður tilboðið ekki virkt gagnvart viðkomandi notanda. Eftir að notandi hefur staðfest skilmála þessa gilda þeir um öll tilboð sem notendur taka þátt í.

4. Tilboð til ákveðinna hópa
Notendur gera sér grein fyrir því að tilboðum kann að vera eingöngu beint til tiltekinna hópa af notendum, sem valdir eru á ópersónugreinanlegan hátt eftir tilteknum breytum, t.a.m. lýðfræðilegum, búsetu, neysluhegðun, kyni eða öðrum flokkum. Slík tilboð taka þá eingöngu til viðkomandi hópa en ekki annarra.

5. Fyrirkomulag
Notandi greiðir fullt verð fyrir vöru og/eða þjónustu til viðkomandi fyrirtækis samkvæmt hverju tilboði. Sá afsláttur sem fyrirtækið greiðir verður greiddur til Meniga Iceland sem tekur við greiðslunni fyrir hönd notanda og greiðir svo til notanda í samræmi við ákvæði skilmála þessara.

Þegar Meniga Iceland hefur borist tilkynning um færslu notenda hjá fyrirtæki á tímabili þegar tilboð var í gangi tilkynnir Meniga Iceland viðkomandi notanda það. Slík tilkynning jafngildir þó ekki að endurgreiðsla hafi borist. Meniga Iceland sendir viðkomandi fyrirtæki greiðslutilmæli vegna endurgreiðslu 1. hvers mánaðar eftir að tilboð fór fram. Notandi getur ávallt séð heildarstöðu sína hverju sinni inni í kerfi Meniga. Um útgreiðslu fjár vísast til 8. gr. skilmála þessara. Notandi gerir sér grein fyrir því að endurgreiðsla til hans berst ekki fyrr en Meniga Iceland hefur sent út greiðslutilmæli 1. hvers mánaðar eftir að gildistími hvers tilboðs klárast og ennfremur að greiðsla til notanda berst ekki fyrr en söluaðili hefur greitt til Meniga Iceland, sbr. 8. gr. skilmálanna.

6. Varðveisla fjár
Þær greiðslur sem Meniga Iceland tekur við fyrir hönd notenda verða varðveittar aðgreint frá öðrum fjármunum félagsins á sérstökum reikningi, sem getur verið fjárvörslureikningur, sérstakur bankareikningur eða annars konar sambærilegur reikningur á vegum Meniga Iceland. Meniga Iceland áskilur sér allan rétt til þess að breyta um reikning eða reikningsform vegna varðveislu fjárins. Þá hefur Meniga Iceland heimild til þess að fela fjármálafyrirtæki eða aðila sem hefur leyfi til greiðsluþjónustu samkvæmt lögum nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, alla umsýslu viðkomandi bankareikningsins og sjá um endurgreiðslu til notenda.

7. Afmörkun afsláttar
Notendum verður kynnt í hverju og einu tilboði með hvaða hætti afslátturinn sem kemur til endurgreiðslu ákvarðast. Sem dæmi getur afslátturinn verið ákveðið hlutfall af kaupverði, eða föst upphæð. Ef notanda stendur til boða fleiri en eitt tilboð frá sama söluaðila á sama tíma þá gildir sá afsláttur sem er hagstæðastur fyrir notanda hverju sinni en safnast ekki upp á milli tilboða hjá sama söluaðila.

8. Greiðslur til notenda
Líkt og rakið er í 5. gr. skilmálanna þá sendir Meniga Iceland greiðslutilmæli til þeirra fyrirtækja, sem hafa tekið þátt í tilboði, 1. hvers mánaðar eftir að tilboði lýkur. Það fé, sem Meniga Iceland hefur móttekið fyrir hönd notenda sinna, verður greitt til hvers notenda 18. þess mánaðar. Beri 18. upp um helgi verður greitt út fyrsta virka dag á eftir. Greiðslan berst inn á reikning sem notandi tilgreinir í kerfi Meniga. Notandi ber ábyrgð á því að tilgreina réttan reikning og gerir sér grein fyrir því að Meniga getur ekki staðreynt hvort reikningur sé sannarlega í eigu hvers og eins notanda. Ennfremur getur Meniga Iceland ekki afturkallað greiðslu sem greidd hefur verið inn á reikning sem tilgreindur hefur verið af notanda. Greiðsla fer fram sjálfkrafa og ekki þarf sérstaka beiðni notanda til þess. Notendur geta ekki fengið féð greitt út á öðrum tíma eða á annan hátt.

Takist endurgreiðsla ekki á tilsettum tíma, s.s. vegna þess að bankareikningur er ekki lengur til staðar, mun Meniga Iceland leita leiða til þess að hafa upp á notandanum með öðrum hætti og greiða féð til viðkomandi. Gangi það ekki eftir mun Meniga Iceland varðveita féð eins og almennar reglur um fyrningu segja til um.

9. Vanskil söluaðila
Notendur gera sér fulla grein fyrir því að endurgreiðslur til sín eru háðar því að Meniga Iceland fái greitt frá viðkomandi söluaðila. Meniga Iceland tekur ekki ábyrgð á því að greiðslur frá söluaðila berist og á notandi ekki neina kröfu á Meniga Iceland í slíkum tilfellum. Meniga Iceland mun hins vegar beita öllum tiltækum leiðum, sem líklegar eru til árangurs, til þess að innheimta féð frá viðkomandi söluaðila komi til vanskila og upplýsa viðkomandi notendur um framgang mála í slíkum tilfellum, eins og unnt er.

Kjósi Meniga Iceland, þótt því sé það ekki skylt, að greiða til notenda kröfu vegna endurgreiðslu sem er í vanskilum hjá fyrirtæki, þá staðfestir notandi að Meniga Iceland leysi til sín kröfuna á hendur söluaðila og að notandi framselji Meniga Iceland kröfu sína á hendur viðkomandi söluaðila.

10. Umboð
Með því að staðfesta skilmála þessa veitir notandi Meniga Iceland fullt og ótakmarkað umboð til þess að móttaka og varðveita fyrir sína hönd endurgreiðslur frá fyrirtækjum vegna tilboða og felst að öðru leyti á skilmála þessa. Ennfremur að Meniga Iceland hefur heimild til þess að koma fram fyrir hönd notanda gagnvart fyrirtækjum sem taka þátt í tilboðum á vegum Meniga Iceland og sækja það fé sem notandi á inni hjá fyrirtækinu komi til vanskila, sbr. 9. gr. skilmála þessara.

Notandi gerir sér grein fyrir því að Meniga Iceland varðveitir það fé sem fæst endurgreitt fyrir sína hönd þar til það er greitt út til notanda í samræmi við ákvæði þessara skilmála. Notandi gerir sér grein fyrir og samþykkir að ekki leggjast ofan á þá fjárhæð sem hann greidda út frá Meniga Iceland vextir eða verðbætur og á notandi ekki kröfu á hendur Meniga Iceland af þeim sökum.

11. Breytingar á skilmálum
Meniga er þjónusta sem er í stöðugri þróun. Meniga Iceland áskilur sér því rétt að breyta ákvæðum þessara skilmála, enda verði notendum þjónustunnar tilkynnt í tölvupósti um allar breytingar á viðeigandi hátt með 10 daga fyrirvara. Breytingar þessar geta varðað vörur sem eru notaðar og virkni þeirra. Noti notandi þjónustuna að 10 daga fyrirvaranum liðnum verður litið svo á að hann hafi samþykkt skilmálana í breyttri mynd. Sætti notandi sig ekki við skilmálana eftir breytingu skal hann hætta notkun þjónustunnar án tafar og skrá sig úr henni á vefsíðunni meniga.is.